Lögregla stöðvaði uppþot í sænskum skóla

Átök brutust út fyrir utan Alléskólann í Hallsberg suður af Örebro í gær. Steinum og gleri var grýtt í lögreglu sem varðist árásarmönnunum, þá voru blaðamenn sem komnir voru á staðinn einnig grýttir. Lögreglan handtók alls 11 manns í aðgerðunum sem voru nokkuð umfangsmiklar. Lögreglumaðurinn Mats Öhman segir að árásin hafi komið eins og elding að himnum ofan og ekkert hafi bent til þess að slíkt hafi verið í uppsiglingu. Lögreglan telur að milli 15 og 30 manns hafi tekið þátt í uppþotinu. Þegar uppþotið hófst sendi skólastjórinn Marie Kilk út sms til allra nemenda og starfsmanna skólans þar sem þeim var skipað að forða sér inn í skólann til að koma í veg fyrir meiðsli. Öryggisverðir og kennarar stóðu svo við hverja byggingu og engum var hleypt út á meðan lögreglan lét til skarar skríða gegn árásarliðinu fyrir utan skólann. Skólastýru skólans var afar brugðið vegna atviksins og sagði við sænska sjónvarpið að mikill órói hefði gripið um sig vegna ástandsins.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila