Mikilvægt að Norðurlönd og Afríkuríki starfi saman í þágu ungs fólks

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ræðir við Ammo Azizo Barut sendiherra Tjad gagnvart Evrópusambandinu.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði áherslu á tengsl kynjajafnréttis, friðar og öryggis í erindi sínu í á árlegum fundi utanríkisráðherra Norðurlanda og Afríkuríkja í Kaupmannahöfn. Hann ítrekaði einnig mikilvægi samstarfs þjóðanna í þágu ungs fólks.
Á fundinum var meðal annars rædd aukin samvinna Norðurlandanna og Afríkuríkja við að byggja upp öflug samfélög í síbreytilegu hnattrænu umhverfi. Í umræðum í morgun voru öryggis- og friðarmál ofarlega á baugi þar sem aukin aðkoma og mikilvægi kvenna og ungs fólks í friðaruppbyggingu var í brennidepli. Áhersla var lögð á aukna svæðisbundna- og alþjóðlega samvinnu, til dæmis undir hatti Sameinuðu þjóðanna. Ennfremur kom fram að aukin samþætting mannúðarmála, þróunarsamvinnu og friðar- og öryggismála væri lykilatriði þegar kæmi að því að tryggja frið.
Utanríkisviðskipti og gildi frjálsra viðskipta, aukinn hagvöxtur, betri lífskjör og sjálfbær þróun voru einnig á dagskránni. Rætt var um hvernig stjórnvöld ríkjanna geta unnið saman að því að fjarlægja flöskuhálsa og hvetja til fjárfestinga og viðskipta í Afríku. Guðlaugur Þór gerði mikilvægi opinna markaða og fríverslunarsamninga að umtalsefni og sagði utanríkisverslun snúast um samvinnu og traust. Hann teldi mikil tækifæri liggja í Afríku og sagði þróunina í átt að fríverslunarsamtökum álfunnar afar jákvæða. Mikið var rætt um hlutverk einkageirans og nauðsyn þess að byggja upp traust og gagnsæi í viðskiptaumhverfi til að laða að erlendar fjárfestingar.
Í því samhengi var skilvirkni alþjóðlega viðskiptakerfisins og hlutverk stofnana eins og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar undirstrikað af mörgum. Á fundinum var jafnframt rætt um mikilvægi þess að styðja við framtíðarmöguleika ungs fólks og efla atvinnusköpun og atvinnutækifæri við hæfi, ekki síst í ljósi mikillar fólksfjölgunar í Afríku og samfélagslegra breytinga. Fram kom að fjórða iðnbyltingin kallaði á aðlögun að breyttum aðstæðum í takt við örar tækniframframfarir og ríkin þyrftu að vinna saman að því enginn yrði út undan í þeirri þróun.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila