Nauðsynlegt að marka róttæka byggðastefnu

Brýn þörf er á að grípa til aðgerða, meðal annars að styðja við bakið á sauðfjárbændum ef ekki á illa að fara fyrir landsbyggðinni. Þetta er mat Guðna Ágústssonar fyrrverandi landbúnaðarráðherra sem fram kemur í nýjum pistli hans í Bændablaðinu. Guðni óttast að tíminn til þess að koma í veg fyrir flótta bænda úr sauðfjárrækt sé við það að renna út „ Við skulum gera okkur grein fyrir því að ef ekkert verður gert í sumar í málefnum sauðfjárbænda og yfir þá skellur enn hrina lækkaðs verðs á lambakjöti  í haust verður fólksflótti út úr atvinnugreininni og það verður yngra fólkið sem fer. Þegar talað er um sauðfjárbændabyggðir þá eru stór landsvæði þar undir, það má segja að auk Strandasýslu sverfi að Húnavatnssýslunum báðum, Vestfjörðum og Dalasýslu, jafnvel Vesturlandi öllu. Skagafjörðurinn er sterkari, það gerir skagfirska efnahagssvæðið, og Eyjafjörðurinn er öflugasta svæðið á landsbyggðinni. Svo er það Norðausturlandið, bæði í Þingeyjarsýslum og Austurlandi, svo Öræfin og Vestur-Skaftafellssýsla, en þar kreppir að„,skrifar Guðni.

Hægt að nýta hugmyndir frá Bretlandi

Guðni segir ekki nóg að grípa einungis til aðgerða sem miða að því að efla sauðfjárræktina heldur þurfi að grípa til mun róttækari aðgerða líkt og Bretar hafa á stefnuskránni “ Bretar eru nú að fara í öfluga byggðastefnu, ætla að reisa 17 þorp á landsbyggðinni hjá sér.  Þorp með allri mannlegri þjónustu, atvinnu og ódýrum íbúðum til að styrkja byggð og bjóða upp á aðra leið gegn hinu himinháa íbúðaverði í London. Kannast einhver við svipaðar aðstæður t.d. í höfuðborginni okkar? Getum við lært eitthvað af Bretum, jafnvel ljósritað þeirra hugmynd og yfirfært hana á Ísland?„,spyr Guðni.

Athugasemdir

athugasemdir