Netþrjótar senda út svikapóst í nafni lögreglunnar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur til rannsóknar mál vegna svikatölvupósta sem sendir hafa verið út í nafni lögreglunnar. Samkvæmt lögreglu lítur pósturinn út fyrir að vera mjög trúverðugur og því afar hætt við að fólk láti blekkjast. Í póstinum er viðtakandi sagður þurfa að mæta í skýrslutöku á tilteknum degi og tíma og að nánari upplýsingar megi fá um efni skýrslutökunnar smelli fólk á hlekk sem fylgir tölvupóstinum og setji þar inn persónuupplýsingar. Lögreglan beinir þeim tilmælum til almennings að opna alls ekki umrædda pósta og þar síður að smella á hlekkinn sem þeim fylgir. Lögregla telur að netþrjótarnir leggi stund á svokallaða gagnagíslatöku með þessum hætti og því ættu þeir sem hafa opnað tölvupóstinn og smellt á hlekkinn að slökkva á tölvunni og taka hana úr sambandi og leita til sérfræðinga um næstu skref. Þá hefur lögreglu borist talsverður fjöldi ábendinga um pósta af þessu tagi síðasta sólarhringinn.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila