Ný reglugerð um gæði eldsneytis innleidd

pumpaUmhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur gefið út reglugerð um gæði eldsneytis, sem felur í sér breytingar á reglum um fljótandi eldsneyti. Fram kemur í tilkynningu að markmið reglugerðarinnar sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í tengslum við eldsneyti eða orku sem afhent er hér á landi og hugsanlegum skaðlegum áhrifum eldsneytis á heilsu fólks og umhverfi. Í nýju reglugerðinni eru gerðar ákveðnar kröfur til bensíns og dísileldsneytis sem er markaðssett hérlendis. Einnig kveður reglugerðin á um skyldu birgja til að skila inn skýrslum um styrk gróðurhúsalofttegunda úr eldsneyti og orku sem afhent hefur verið hér á landi og að draga í áföngum úr losun gróðurhúsalofttegunda úr eldsneyti og orku, um allt að 10% fram til 2020. Þá kemur fram að með reglugerðinni sé verið að innleiða ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins um gæði bensíns og dísileldsneytis og að reglugerðin komi í stað eldri reglugerðar um fljótandi eldsneyti.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila