Ný Vestmannaeyjaferja mun eingöngu sigla á raforku

Nýja ferjan mun taka við hlutverki Herjólfs sem sinnt hefur siglingum milli lands og Eyja í áraraðir.

Vegagerðinni hefur verið falið af Samgönguráðuneytinu að leita samninga við pólsku skipasmíðastöðina CRIST C.A um smíði nýrrar ferju sem taka mun við hlutverki Herjólfs sem um árabil hefur ferjað landsmenn milli lands og Eyja. Athygli vekur að gerð verður sú krafa að nýja ferjan verði búin gríðarstórum rafgeymum sem duga munu til þess að ferjan geti sinnt áætlunarferðum eingöngu knúin raforku. Í tilkynningu segir að sú stefna að ætla að fjárfesta í skipi sem hafi þann eiginleika að ganga fyrir raforku sé í samræmi við stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum

Skipasmíðastöðin hefur lagt fram tilboð um þessa breytingu á skipinu en einnig þarf að koma upp tengibúnaði fyrir hleðslu úr landi hvorttveggja í Vestmannaeyjum og í Landeyjahöfn. Reiknað er með að fjárfestingin muni skila sér á 10 árum en nokkur kostnaður mun hljótast af breytingunni á skipinu og uppbyggingunni í landi. Fram kemur í tilkynningu að ráðuneytið muni beita sér fyrir sérstakri fjárveitingu vegna verkefnisins. Þá er ljóst að breytingin muni einnig seinka afhendingu nýrrar Vestmannaeyjaferju nokkuð, að öllum líkindum um nokkrar vikur, en reynt verður að lágmarka þann tíma svo sem kostur er.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila