Treyst á guð og lukkuna í orkupakkamálinu og Landsréttarmálinu

Eyjólfur Ármannsson lögfræðingur

Talsverð líkindi eru með vinnubrögðunum í orkupakkamálinu og Landsréttarmálinu þegar málin eru borin saman. Þetta segir Eyjólfur Ármannsson lögfræðingur sem starfar í Noregi en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í síðdegisútvarpinu í gær.

Eyjólfur bendir á í Landsréttarmálinu hafi þingmenn vitað að þeir væru ekki að fara að lögum við valið á dómurum Landsréttar “ heldur vísuðu þeir í þingskapalög og þingskapavenju og það eru eldri reglur þar, bráðabirgðaákvæðið var nýtt ákvæði, þetta voru sérlög og sérstaklega sett út af þessu máli, og allir sem kunna túlkun í lögfræði vita að ný lög ganga framar eldri, sérlög ganga framar almennum og rituð lög ganga framar venju en þessu er algjörlega horft framhjá„,segir Eyjólfur.

Treysta á guð og lukkuna

Eyjólfur heldur áfram og segir að nú eins og þá ætli menn sér að taka áhættuna og treysta í blindni “ það virðist á þeim tíma hafa verið einhver hugsun um að menn myndu bara gera þetta svona og þetta yrði allt í lagi, menn treystu bara á guð og lukkuna, og ekki talað heldur við sérfræðingana, hvar voru sérfræðingarnir?, og það er sama hugsunin í þessu orkupakkamáli „við gerum þetta svona, hendum þessari reglugerð, þetta verður allt í lagi, það kemur enginn sæstrengur nema við ákveðum það,“ þetta er hugsunin, að treysta á guð og lukkuna, en svo ef það kæmi dómsmál úti í Lúxemburg þá vitum við ekkert hvernig það færi, hvort það væri skaðabótamál eða samningsbrotamál„,segir Eyjólfur.

Þá segir Eyjólfur að almenningur sé almennt illa upplýstur um eitt grundvallaratriði Landsréttarmálsins “ menn horfa aðeins alltaf á brot ráðherrans en staðreyndin er að þingið braut líka lögin, það er einn stærsti punkturinn„.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila