Píratar stofna bæjarmálafélag í Mosfellsbæ

Píratar stofnuðu síðastliðinn laugardag aðildarfélag flokksins í Mosfellsbæ. Fram kemur í tilkynningu frá Pírötum að fundurinn hafi verið afar vel sóttur en á fundinum var meðal annars kosið í stjórn félagsins. Stjórnarmenn voru kjörin þau Sigrún Guðmundsdóttir, Kristján Ingi Jónsson og Einar Bogi Sigurðsson. Boðað hefur verið til fyrsta stjórnarfundar í dag, mánudag en fyrsta verkefni stjórnar
er að skipta með sér verkum og boða til almenns félagsfundar sem tekur afstöðu til framboðsmála Pírata í bæjarfélaginu.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður flokksins var meðal þeirra sem sátu fundinn en hún segir stofnun félagsins vera gott dæmi um þá siglingu sem flokkurinn er á í dag „Stofnun Pírata í Mosfellsbæ er enn eitt dæmið um þá miklu siglingu sem Píratar eru á, við getum verið stolt af hreyfingunni okkar. Píratar eru komin til að vera,“ . Þórhildur Sunna er sjálf uppalin í Mosfellsbæ og eru foreldrar hennar enn búsettir þar í dag, hún segir gott að vera í Mosfellsbæ. „Hér á ég rætur að rekja. Hér búa foreldrar mínir og hingað kem ég oft eftir langa þingdaga og nýt þeirrar lukku að eyða tíma í fangi fjölskyldunnar í fallegu umhverfi Mosfellsbæjar. Hér líður mér eins og ég sé komin í friðsæla sveitina  umlukin Reykjarlundarskóginum og í nágrenni Álafoss og Varmár. Hér er gott að slaka á og gleyma erli dagsins.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila