Ræddu leiðir til að bæta stöðu barna í vímuefnavanda

Velferðarráðuneytið efndi á dögunum til vinnustofu um  málefni barna og ungmenna sem glíma við neysluvanda.
Til fundarins voru boðaðir þeir hafa komið að málefnum hópsins. Markmiðið með vinnustofunni var að ræða framtíðarfyrirkomulag áfengis- og vímuefnameðferðar fyrir börn og ungmenni, hvernig efla megi bráðaþjónustu við þennan hóp og tryggja samfellu í þjónustunni.

Vinnustofan stóð í heilan dag þar sem fulltrúar frá Landspítala, Barnaverndarstofu, Umboðsmanni barna, Reykjavíkurborg, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Olnbogabörnum, SÁÁ, Embætti landlæknis og Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu deildu þekkingu sinni og reynslu, ræddu hvað má betur fara og hvaða leiðir að bættu fyrirkomulagi séu æskilegar að þeirra mati. Ákveðið var á fundinum að stofna stýrihóp með fulltrúum heilbrigðisráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra, Landspítala og Barnaverndarstofu til að vinna að þessum málum á grundvelli þeirra hugmynda sem rætt var um á vinnufundinum.
Nánari útfærsla á þeirri vinnu verður kynnt á síðari stigum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila