Ræddu samskipti og viðskipti Íslands og Kína

Zhao Hongzhu stjórnarmaður í miðstjórn kínverska Kommúnistaflokksins og Guðlaugur Þór Þórðar utanríkisráðherra

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti í dag fund með Zhao Hongzhu, stjórnarmanni í miðstjórn kínverska kommúnistaflokksins, sem staddur er hér á landi. Á fundi sínum ræddu þeir samskipti Íslands og Kína, þar með talið framkvæmd tvíhliða fríverslunarsamnings milli ríkjanna, en viðskipti Íslands og Kína hafa aukist ár frá ári frá gildistöku hans. Kínverskum ferðamönnum hingað til lands hefur sömuleiðis fjölgað mjög en búist er við að þeir verði um 100.000 í ár. Þá hafa umsvif íslenskra fyrirtæki í Kína einnig aukist. Ítarlega var rætt um jarðhitanýtingu og íslenska sérþekkingu á því sviði sem Zhao Hongzhu sagði mjög eftirsóknarverða. Voru aðilar sammála um að frekari möguleikar væru til staðar í jarðhitasamstarfi.

Utanríkisráðherra tók upp stöðu mannréttindamála í Kína og hvatti þarlend stjórnvöld til umbóta. Einnig var staða mála í Norður Kóreu rædd. Að endingu voru málefni norðurslóða á dagskrá, en Kína á  áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og hefur samstarf ríkjanna farið vaxandi, m.a. á sviði vísinda, siglinga og verndunar hafsins.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila