Ræddu stöðu og horfur á vinnumarkaði

Þegar lífskjör landsmanna eru skoðuð þarf spyrja um þróun ráðstöfunartekna og kaupmáttar þeirra, fremur en að horfa aðeins á mælikvarða skatthlutfalla. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, í pallborði á morgunfundi Landsbankans þar sem rætt var um stöðu og horfur á íslenskum vinnumarkaði.
Auk Bjarna tóku þátt í pallborðsumræðunum þau Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Fram kom í máli fjármála- og efnahagsráðherra að þær raddir heyrðust nú að sá árangur sem náðst hefði í kjaramálum fyrir ákveðna hópa hefði að mestu runnið til hins opinbera og skattbyrði verið velt yfir á tekjulægstu hópana. Ekki væru til tölfræðigögn sem sýndu fram á þetta. Vissulega hefði skattbyrði aukist hjá mörgum með stórhækkuðum launum og fleiri tækju nú þátt í að greiða staðgreiðslu. Fjármála- og efnahagsráðherra ræddi um launajöfnuð og benti á að mælingar frá árinu 2016 sýndu að á Íslandi væri launajöfnuður mestur í Evrópu. „Við höfum engar tölur í höndunum um að launaójöfnuður sé að aukast. Við erum þvert á móti með vísbendingar um að launajöfnuður sé að vaxa,“ sagði ráðherra.
Hvað snerti þá sem væru í efstu lögum hins opinbera hefði verið unnin skýrsla fyrr á árinu og farið yfir þróun þeirra hópa sem heyrðu undir kjararáð, sem var lagt niður í sumar. Hefði niðurstaðan verið sú að þessir hópar hafi ekki skilið sig að frá öðrum hvað snerti þróun launa.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila