Rekstur Akureyrarbæjar skilar rúmlega 500 milljóna afgangi

Rekstur Akureyrarbæjar er í miklum blóma ef marka má ársreikning bæjarins sem lagður var fram á síðasta fundi bæjarráðs. Þar kemur meðal annars fram að þrátt fyrir mjög háa gjaldfærslu vegna breytinga á lífeyrisskuldbindingum skili reksturinn 557 milljóna afgangi, sem er talsvert umfram það sem fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs er afar ánægður með stöðuna sem muni koma til góða til framtíðar “ Rekstrarniðurstaðan er góð hjá samstæðunni og betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Uppgjör lífeyrisskuldbindinga hefur mikil áhrif og þá sérstaklega á niðurstöðu A-hluta en hins vegar eru helstu kennitölur að batna, veltufé frá rekstri eykst og langtímaskuldir A-hluta lækka. Þegar upp er staðið eftir kjörtímabilið, má ljóst vera að við skilum af okkur góðu búi og sveitarfélagið er vel í stakk búið til að takast á við verkefni Akureyrar til framtíðar„,segir Guðmundur.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila