Ríkissjóður kaupir eigin bréf fyrir 27 milljarða króna

Ríkissjóður keypti í vikunni eigin skuldabréf af Seðlabanka Íslands samtals að fjárhæð 27 ma.kr. Um er að ræða bréf í flokknum RIKH 18 fyrir um 4,7 ma.kr. að nafnvirði og í flokknum RIKB 19 fyrir um 21,6 ma.kr. að nafnvirði. Uppgjör viðskipta fór fram í dag. Heildarkaupverð bréfanna nemur 27,3 ma.kr. Kaupin eru fjármögnuð með innstæðum ríkissjóðs hjá Seðlabanka Íslands og með lækkun á almennri sjóðsstöðu.
Eftir þessi viðskipti nema heildarskuldir ríkissjóðs um 866 ma.kr., eða sem samsvarar 32% af vergri landsframleiðslu, og er þá tekið tillit til útboðs á ríkisbréfum sem fram fór í dag. Hrein staða ríkissjóðs reiknuð á grundvelli laga um opinber fjármál, þ.e. þegar sjóðir og innstæður eru dregnar frá heildarskuldum, nemur eftir viðskiptin um 724 ma.kr., eða sem nemur um 27% af vergri landsframleiðslu.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila