Rúnar Gunnarsson verður oddviti Miðflokksins í Fjarðabyggð

Rúnar Gunnarsson oddviti Miðflokksins í Fjarðabyggð.

Miðflokkurinn ætlar að bjóða fram í Fjarðabyggð en stofnfundur Miðflokksfélags Fjarðabyggðar fór fram um helgina þar sem framboð var ákveðið.  Þá var jafnframt ákveðið hver myndi leiða lista flokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum og var Rúnar Gunnarsson valinn sem Oddviti flokksins í Fjarðabyggð. Rúnar hefur áratuga reynslu af rekstri, en hann keypti fyrirtæki í flutningaþjónustu árið 1979 og byggði það upp þar til hann seldi Eimskip það árið 1999. Hann hefur rekið flutningaþjónustu Eimskips á Austurlandi síðan. Rúnar leggur mikla áherslu á að vinna að betri sameiningu fólksins í Fjarðabyggð til að styrkja samfélagið í heild, og að rýna í fjármál og starfsmannamál sveitarfélagsins með það í huga að auka nýtni fjármagnins gagnvart núverandi íbúum.  Rúnar er fæddur og uppalinn á Norðfirði og býr þar ásamt eiginkonu hans Aldísi Stefánsdóttur. Rúnar og Aldís eiga saman fjögur börn og sex barnabörn. Fram kemur í tilkynningu að áherslumál flokksins í Fjarðabyggð verði kynnt þegar nær dregur kosningum.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila