Samband ungra Sjálfstæðismanna ber fullt traust til Sigríðar Andersen

Ingvar Smári Birgisson formaður SUS.

Samband ungra Sjálfstæðismanna lýsir yfir fullu trausti við Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra. Þetta kemur fram í ályktun frá stjórn SUS. Í ályktuninni er bent á þá staðreynd að Sigríður hafi ein ráðherra í sögunni neitað að skrifa undir beiðni um uppreist æru þvert á ráðleggingar ráðuneytis og áratugavenju sem feli í sér afgreiðslu slíkra mála án athugasemda. Þá segir að SUS fagni því að ráðherra gæti fyllstu varkárni í meðferð viðkvæmra upplýsinga. Ályktunina má lesa hér að neðan í heild sinni.

Ályktun SUS

Samband ungra Sjálfstæðismanna (SUS) ber fullt traust til Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra, nú sem fyrr, og hafnar ásökunum um að Sjálfstæðisflokkurinn sýni kynferðisafbrotum léttúð. Dómsmálaráðherra hóf í maí á þessu ári endurskoðun á lögum um uppreist æru með það að markmiði að gera lögin gagnsærri og skapa sátt um þau. Hún hefur einnig, ein ráðherra í sögunni, neitað að skrifa undir uppreist æru einstaklings sem dæmdur var fyrir kynferðisbrot, þvert á ráðleggingar ráðuneytisins og áratugalanga venju athugasemdalausra afgreiðsluhátta. SUS fagnar því jafnframt að dómsmálaráðherra gæti fyllstu varkárni við meðferð viðkvæmra upplýsinga. Birting upplýsinga sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari skv. upplýsingalögum geta varðað refsiábyrgð eins og dæmin sýna.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila