Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnti sér starfsemi Þjóðskrár Íslands

Jón Gunnarsson samgöngu og sveitarstjórarráðherra.

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, heimsótti Þjóðskrá Íslands í dag og kynnti sér starfsemi hennar. Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár, tók á móti ráðherra og fylgdarliði og fór yfir helstu verkefni stofnunarinnar og hvað væri framundan og nefndi meðal annars að brýnt væri að endurskoða ýmis lög sem stofnunin starfaði eftir.

Starfsmenn Þjóðskrár Íslands eru 107 og eru 90 í aðalstöðvunum í Reykjavík en 17 á Akureyri. Auk framlags á fjárlögum fær stofnunin tekjur af sölu upplýsinga úr grunnskrám, frá sveitarfélögum vegna umsjónar með fasteignamati, frá tryggingafélögum vegna brunabótamats og af skráningu nýrra fasteigna og útgáfu vottorða. Gildi stofnunarinnar eru: Virðing, sköpunargleði og áreiðanleiki.
Þjóðskrá Íslands og Fasteignamat ríkisins runnu saman árið 2010 og eru helstu verkefnin að sjá um grunnskrár, þ.e. þjóðskrá, fasteignaskrá og lögræðissviptingarskrá, að ákveða fasteignamat og brunabótamat eigna, að gefa út margs konar skilríki svo sem vegabréf, nafnskírteini og dvalarleyfi fyrir útlendinga og annast skráningu á íslykli. Þá annast stofnunin rekstur vefsins island.is, sér um þinglýsingarkerfi, álagningarkerfi sveitarfélaga og fleira og sinnir verkefnum á sviði kosninga.
Þjóðskrá Íslands hefur nýverið gefið út stefnu fyrir árin 2017 til 2020 undir heitinu Hvar sem er – hvenær sem er. Þar er birt framtíðarsýn og sett fram markmið: Að veita fyrsta flokks þjónustu sem sparar viðskiptavinum sporin hvar sem er – hvenær sem er. Áherslur sem tryggja að framtíðarsýn Þjóðskrár verði að veruleika árið 2020 eru að stofnunin verði sjálfvirk, skilvirk og snjöll og einsetur stofnunin sér að vera upplýsingaveita sem innviðir samfélagsins reiða sig á, að fólk og fyrirtæki geti sinnt erindum sínum hvar sem er og hvenær sem er.
Þá kom fram hjá forstjóra Þjóðskrár að endurskoða þurfi lög um þjóðskrá og almannaskráningu frá 1952 og 1962 og að æskilegt væri að setja stofnuninni rammalöggjöf og finna henni nýtt heiti sem lýsti betur starfsemi hennar en núverandi nafn. Hefðu fyrstu drög þegar verið send ráðuneytinu til skoðunar.
Jón Gunnarsson sagði heimsóknina hafa verið afar fróðlega og ljóst væri að Þjóðskrá Íslands gegndi fjölþættu og yfirgripsmiklu hlutverki í nútímaþjóðfélagi. Tók hann undir að þörf væri á að endurskoða lög og reglur sem snertu starfsemi Þjóðskrár og að framundan væri að bæði Þjóðkrá og ráðuneytið færu yfir málið í heild sinni.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila