Samgönguþing haldið í Hveragerði í september

Hveragerði

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og samgönguráð boða til samgönguþings fimmtudaginn 28. september á Hótel Örk í Hveragerði. Þar verða kynntar áherslur í samgönguáætlun næstu ára og fjallað um ýmis mál í málstofum. Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra mun setja þingið og að því loknu verður fjallað um áherslur samgönguáætlunar til næstu tólf ára. Framsögur flytja Ásmundur Friðriksson alþingismaður og formaður ráðsins, Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Þórólfur Árnason forstjóri Samgöngustofu og Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia.

Í tilkynningu segir að á dagskrá verði fyrirlestrar um framtíðarsýn í samgöngum, um þýðingu samgangna og fjarskipta fyrir byggðaþróun og um fjármögnun framkvæmda á stofnleiðum út frá höfuðborgarsvæðinu. Ýmis umræðuefni verða síðan til umfjöllunar í málstofum, svo sem alþjóðlegt regluverk, innanlandsflug, umferðaröryggi, ferðaþjónustan og fleira. Dagskráin er enn í mótun og því gæti hún átt eftir að breytast.
Þingið hefst klukkan 11 fimmtudaginn 28. september og er gert ráð fyrir að dagskrá ljúki um kl. 16. Samgönguþing er öllum opið en þó er mikilvægt að skrá sig með því að senda tölvupóst á netfangið kristin.hjalmarsdottir@srn.is.

Athugasemdir

athugasemdir