Sannfærður um að ríkisstjórnin hætti við að samþykkja þriðja orkupakkann

Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra.

Guðni Ágústsson fyrrverandi landbúnaðarráðherra segist sannfærður um að ríkisstjórnin muni þegar á reynir hætta við að innleiða þriðja orkupakkann. Þetta kom fram í máli Guðna í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur. Guðni segist spá því að ríkisstjórnin nái saman um það að málið fari ekki í gegn “ ég spái því að ríkisstjórnin opni augun, fresti málinu eða fari þá leið sem á að fara, tilkynni Evrópusambandinu að þau vilji ekki innleiða þennan pakka, þau hafa fullan rétt til þess og það eru bara lög sem standa til þess„,segir Guðni. Þá bendir Guðni á að málið sé ráðherrum Sjálfstæðisflokksins erfiður ljár í þúfu þar sem mikil andstaða sé við málið meðal grasrótarinnar inni í flokknum “ Þórdís Kolbrún og Guðlaugur Þór finna fyrir andbyr og þau viðurkenna það, Þórdís er nú framtíðardrottning og hún á ekki lenda í pólitísku hálsbroti í svo erfiðu máli, hún þarf þess ekki, málið er ógnvænlega erfitt í Sjálfstæðisflokknum„,segir Guðni. Þá segir Guðni að frasrót Framsóknarflokksins og Vinstri grænna sé ekki eins sterk en það að hætta við innleiðingu orkupakkans rími betur við hagsmuni VG “ hún á aldrei að ganga þessa leið með Vinstri græna, að opna á það að hér verði allt brotið á bak aftur, Landsvirkjun fari og erlent vald verði komið hér í Fossá og íslenska orku, við viljum ekkert flytja íslenska orku úr landi, við viljum nota hana hér í landinu„. Hlusta má á viðtalið í spilaranum hér að neðan.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila