Segir að ekki megi gleyma hvers vegna mótmælin fóru fram

Björn Þorri Viktorsson hæstaréttarlögmaður.

Björn Þorri Viktorsson hæstaréttarlögmaður segir að umræðan um mótmælin sem fram fóru fyrir framan heimili Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur á árinu 2010sé villandi og rangt farið með staðreyndir, auk þess sem ólíkum atriðum sé blandað inn í umræðuna sem ekkert hafi með mótmælin að gera. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Björns Þorra í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Péturs Gunnlaugssonar og rifjaði upp mótmælin. Björn bendir meðal annars á að ekki megi gleyma því að mótmælin fóru fram vegna styrkja sem Steinunn Valdís þáði vegna þátttöku sinnar í prófkjöri.

Steinunn þáði á annan tug milljóna í styrki

Styrkirnir sem Steinunn þáði á árunum 2006 – 2007 námu alls tólf milljónum og 750 þúsundum króna, en stærsti styrkurinn kom frá Landsbankanum eða þrjár og hálf milljón. Þá fékk Steinunn tvær milljónir frá Baugi, tvær milljónir frá Fl Group auk einnar milljónar frá Nýsi. Steinunn fékk einnig hálfa milljón frá Hönnun ehf og sömu upphæð frá Atlantsolíu auk 650 þúsund króna frá Eykt. Mörg önnur félög styrktu Steinunni um lægri upphæðir sem námu minna en 500 þúsund en framlög þeirra félaga námu alls rúmlega tveimur og hálfri milljón.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila