Segir Bandaríkin hafa sjálf brotið gegn samningi um meðaldrægar og skammdrægar eldflaugar

Anton Vasiliev sendiherra Rússlands á Íslandi

Engar sannanir hafa verið lagðar fram sem styðja við ásakanir bandaríkjamanna gagnvart rússum um að rússar hafi brotið gegn samningi ríkjanna um meðaldrægar og skammdrægar eldflaugar. Þetta er meðal þess sem fram kemur í fréttabréfi rússneska sendiráðsins á Íslandi. Bréfið ritar Anton Vasiliev sendiherra en þar fer hann yfir þær ásakanir sem bornar hafa verið á hendur rússum um meint samningsbrot. Í bréfinu bendir Anton á að Bandaríkin hafi sjálf brotið samninginn með þróun á slíkum flaugum þrátt fyrir að skýrt bann sé við því “ Löngu áður en Bandaríkin lýstu því yfir að þau sögðu sig frá samningnum um meðaldrægar og skammdrægar kjarnaeldflaugar hafði Bandaríkjaþing veitt fé af fjárlögum til þróunar á eldflaugum sem samningurinn kvað á um að væru bannaðar. Með öðrum orðum var sú ákvörðun tekin fyrir löngu síðan, þegjandi og hljóðalaust, að

Bandaríkin myndu segja sig frá samningnum um meðaldrægar og skammdrægar
kjarnaeldflaugar. Nú reyna Bandaríkjamenn að láta líta út sem þessi einhliða ákvörðun þeirra sé
Rússlandi að kenna; þeir hafa fengið bandamenn sína í Atlantshafsbandalaginu til liðs
við sig og „styrkt“ þar með keðju tilhæfulausra ásakana um „slæma hegðun“ Rússlands„.

Segir Bandaríkjamenn reyna að fela raunverulega stöðu mála

Anton segir í bréfinu að með ásökunum sínum séu bandaríkjamenn að fela raunverulega stöðu mála „ Í yfirlýsingu V. Gerasímovs, yfirmanns yfirherráðs herafla Rússneska sambandsríkisins, segir: „Raunveruleg staða mála er þessi: Frá árinu 2000 höfum við hvatt Bandaríkjamenn til þess að hætta að nota eftirlíkingar meðaldrægra og skammdrægra skotflauga fyrir æfingaskotmörk við prófanir á gagneldflaugakerfum, en samningurinn bannar það. Auk þess hafa alhliða eldflaugaskotkerfi MK-41, sem eru nú þegar staðsettar í Rúmeníu og er verið að koma fyrir í Póllandi, getu til að skjóta á loft meðaldrægum stímflaugum, en það er beint brot á skuldbindingum samkvæmt samningnum um meðaldrægar og skammdrægar kjarnaeldflaugar. Önnur vandamál eru einnig fyrir hendi sem við höfum oftar en einu sinni bent samstarfsmönnum okkar í Bandaríkjunum á að þarfnist nauðsynlega úrbóta„.

Leggst gegn því að samningnum sé fórnað

Þá segir Anton að samningurinn sé gríðarlega mikilvægur í hernaðarlegu tilliti og sé einnig mjög mikilvægur þegar kemur að alþjóðaöryggismálum, það sé kappsmál að samningurinn haldi “ Við erum reiðubúin að halda áfram samræðum um öll mál sem tengjast framkvæmd samningsins, á viðeigandi vettvangi – og að sjálfsögðu á
grundvelli gagnkvæmrar virðingar og fagmennsku, án þess að fram komi haldlausar ásakanir eða að settir séu úrslitakostir. Tillögur okkar þar að lútandi eru vel kunnar og enn í fullu gildi„.

Rússland er ekki skrattinn á veggnum

Í bréfinu segir Anton að þær tilraunir að koma höggi á rússa með tilbúnum ásökunum hafi mistekist og skynsamt fólk sjái í gegnum þær “ með því að saka Rússland um allar dauðasyndir, skipulega og rakalaust, þá er það álit mitt að slík tilraun hljóti í dag ekki aðeins að vekja efasemdir hjá öllu venjulegu skynsömu fólki heldur einnig íróníu. Það að hrúga einfaldlega upp eintómum haldlausum ásökunum – allt frá „innrás“ í Georgíu og „innlimun“ Krímskaga til þess að „skjóta niður“ МН17, til „afskipta af kosningum“ og „Skrípal-málsins“ – nær ekki að draga upp hina tilætluðu mynd af „vondu löggunni“, en það er hlutverk sem reynt er að klína á Rússland. Þvert á móti kemur það upp um hverjar fyrirætlanir „leikstjóranna“ á bak við þessar ásakanir eru í raun. Rússland er allt of stórt og ábyrgt veldi til þess að bíta á agnið í þessum ögrunarleik, síst af öllu á þessum umbrotatímum þegar ný, margpóla heimsskipun verður til. Það væri fagnaðarefni ef Ísland gegndi ávallt í þessu ferli því uppbyggilega
hlutverki sem hófst með viðræðunum í Höfða“ segir að lokum í bréfinu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila