Segir húsnæðisvandann vinda upp á sig vegna aðgerðarleysis borgaryfirvalda

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir óháður borgarfulltrúi.

Húsnæðisvandinn í Reykjavík er ekki nýr af nálinni og það þýðir ekkert fyrir þá sem stýra borginni að láta eins og þeir séu að vakna upp við vondan draum. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur óháðs borgarfulltrúa í síðdegisútvarpinu í dag en hún var gestur Péturs Gunnlaugssonar. Sveinbjörg segir að það sé þyngra en tárum taki að fólk hafist við í tjöldum og húsbílum í Laugardal og bendir á að minnihlutinn í borginni hafi varað meirihlutann ítrekað við því að húsnæðismálin stefndu í óefni „það er ekki hægt að horfa framhjá því að allt þetta kjörtímabil höfum við í minnihlutanum talað mjög beitt um yfirvofandi húsnæðisskort, lengingu biðlista, hversu illa Félagsbústaðir hafa staðið sig í að fjárfesta í íbúðum, það er ekkert hægt að segja að menn séu að vakna bara upp núna við vondan draum, það er ekkert af þessu nýtt af nálinni, það sem er hægt að segja að sé nýtt að þetta vandamál fer ekkert og það stækkar vegna aðgerðarleysis þeirra sem stýrt hafa borginni síðustu sjö árin„,segir Sveinbjörg.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila