Segir Skipulagsstofnun vega að sjálfstjórn sveitarfélaga

Teitur Björn Einarsson varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins

Teitur Björn Einarsson varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins segir Skipulagsstofnun vega að sjálfsstjórn sveitarfélaga. Þetta kemur fram í aðsendri grein Teits í vefútgáfu Bæjarins Besta í dag. Tilefni skrifa Teits eru inngrip Skipulagsstofnunar inn í skipulagsmál Árneshrepps en þau inngrip gagnrýnir Teitur harðlega ” Í lok apríl sl. birtist frétt í Morgunblaðinu þess efnis að Skipulagsstofnun hefði frestað afgreiðslu á því að staðfesta breytingu á aðalskipulagi Árneshrepps, sem sveitarfélagið hafði samþykkt í janúar og sendi Skipulagsstofnun erindi þess efnis í marsmánuði eins og skipulagslög kveða á um. Stofnunin krafði sveitarfélagið enn fremur um svör um atriði sem lúta að formi og afgreiðslu sveitarfélagsins á aðalskipulagsbreytingunni og um hæfi fulltrúa í sveitarstjórn. Ekki hefur þessi þáttur málsins hlotið mikla athygli á opinberum vettvangi, a.m.k. enn sem komið er. Er það með nokkrum ólíkindum í ljósi þess hversu mjög ríkisstofnunin hefur vegið að sjálfstjórn sveitarfélagsins og farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt með stjórnsýsluháttarlagi sínu. Skipulagsstofnun hefur ekkert boðvald yfir sveitarstjórnum og hefur ekki heimild í skipulagslögum til að hefja sjálfstæða athugun á störfum þeirra og enn síður að kröfu þrýstihópa”,skrifar Teitur.

Gengið erinda hagsmunaaðila.

Teitur segir að jafnframt hafi Skipulagsstofnun gengið erinda hagsmunaaðila sem ekki hafi getað sætt sig við niðurstöðu meirihluta sveitarstjórnar Árneshrepps með því að spyrja um tiltekna þætti málsins sem ekki séu á forræði stofnunarinnar, enda hafi stofnunin eingöngu stjórnsýslulegu hlutverki að gegna ” Stofnunin spyr þannig um fundarboð sveitarfélagsins, hæfi tiltekinna sveitarstjórnarfulltrúa og afgreiðslu mála hjá sveitarfélaginu sem varða ekki skipulagslög. Ekki er stafur um þessi formsatriði í skipulagslögum og stofnuninni er ekki heimilt að hafa afskipti af eigin málum sveitarfélagsins með þessu hætti. Um hæfi fulltrúa gilda ákvæði sveitarstjórnarlaga og það er sveitarstjórn, ekki Skipulagsstofnun, sem tekur ákvörðun um hæfi þeirra. Augljósari verður valdþurrð Skipulagsstofnunar ekki”, skrifar Teitur. Lesa má grein Teits í heild með því að smella hér.

Pétur Gunnlaugsson ræddi við Teit Björn Einarsson í síðdegisútvarpinu í dag þar sem farið var yfir hina ýmsu þætti málsins en hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila