Segir umhverfisvernd ekki mega koma niður á efnahagsuppbyggingu

Efnahagsuppbygging og umhverfisvernd eru engar andstæður,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í ávarpi sínu í opnunarathöfn Arctic Circle Forum í Þórshöfn í Færeyjum í gær. „Þvert á móti verður þetta tvennt að fara saman svo að tryggja megi sjálfbæra þróun og lífsafkomu fólks á norðurslóðum.“
Í ræðu sinni lagði Sigurður Ingi meðal annars áherslu á mikilvægi samgangna og fjarskipta, þ.m.t. háhraðatenginga, til að tengja saman strjálbýl svæði og gera íbúum kleift að nýta tækifæri framtíðar. „Hér nýtist Arctic Circle einkar vel sem vettvangur fyrir samtal og samstarf milli ríkisstjórna, sveitarfélaga, atvinnulífs og háskóla. Vísinda- og stjórnmálasamstarf hefur þegar náð miklum árangri innan vébanda Norðurskautsráðsins en við getum gert enn betur í að auka efnahagssamvinnu og viðskipti á þessu svæði,“ sagði Sigurður Ingi.
Í heimsókn sinni til Færeyja fundaði Sigurður Ingi einnig með Poul Michelsen, utanríkisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna, þar sem rætt var um fyrirhugaða formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Þá heimsótti Sigurður Ingi skrifstofu NORA, Norður-Atlantshafssamstarfsins, í Þórshöfn.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila