Segja hælisleitendur hafa mótmælt í leyfisleysi

Mótmæli hælisleitenda á Austurvelli fóru fram án tilskilinna leyfa og því bar lögreglu að hafa afskipti af þeim. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að venjan sé sú að sótt sé um leyfi fyrir slíkum viðburðum, sem og leyfi til þess að tjalda á Austurvelli, en slík leyfi hafi ekki verið fyrir hendi. Þá segir að hluti mótmælenda hafi gert aðsúg að lögreglu og því hafi þurft að grípa til þess ráðs að beita piparúða gegn fólkinu, bendir lögregla á að slík valdbeiting sé sú vægasta sem gripið sé til við þessar aðstæður og að auki hafi sjúkrabílar verið kallaðir á svæðið til þess að aðstoða mótmælendur við að skola efnið úr augum sínum.

Staða hælisleitenda batnar ekki með því að efna til áfloga við lögreglu

Í tilkynningu lögreglunnar segir að hún hafi skilning á stöðu hælisleitenda og að lögreglan stilli sér aldrei upp sem andstæðingi mótmælenda í neinni mynd ” Lögreglan er alltaf til viðræðu við mótmælendur og við vonumst til að ekki þurfi að koma til sambærilegra aðgerða lögreglu á mótmælum sem fyrirhuguð eru í dag. Lögreglan er ekki andstæðingur mótmælenda. Hælisleitendur eru hópur í veikri stöðu, eins og lögreglan þekkir sjálf vel til, en staða þeirra verður ekki bætt með því að efna til áfloga við lögreglu. Lögreglan biður mótmælendur um að halda sig við friðsamlegar aðgerðir og leggur áherslu á að þeir fylgi fyrirmælum lögreglu á vettvangi.“,segir í tilkynningunni.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila