Segja nýja reglugerð sjávarútvegsráðherra ógna starfsöryggi fiskvinnslufólks

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda mótmæla harðlega nýrri reglugerð sjávarútvegsráðherra sem heimilar 30% hliðrun á aflaheimildum á milli ára. SFÚ segir fyrirkomulagið grafa undan rekstrargrundvelli sjálfstæðra fiskframleiðenda og þar með setja störf hundruða fiskvinnslufólks í hættu. Í tilkynningu frá SFÚ vegna málsins segir meðal annars “ Sífellt kemur betur í ljós hvernig handhafar aflaheimilda hugsa eingöngu um sína sér hagsmuni og greiða sér háar arðgreiðslur en skilja starfsfólk og heilu byggðarlögin eftir í stór vanda og atvinnuleysi þegar það hentar. Ráðamenn þjóðarinnar verða að vakna til vitundar í þessum efnum. Nær væri að stjórnvöld kölluðu eftir samfélagsábyrgð kvótahafa í stað þess að sveigja kerfið til að gera þeim kleift að soga til sín allan arð af sameiginlegri þjóðarauðlind á kostnað sjómanna, samkeppnisaðila í greininni og verkafólks í landvinnslu. Hin nýja reglugerð grefur undan því að hægt sé að ná sátt um þessa grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar. Aðildarfyrirtæki SFÚ krefjast þess að hún verði dregin til baka en verði það ekki gert neyðast þau til að hefja þegar í stað undirbúning uppsagna starfsfólks í hundraða tali„.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila