Segja úrlausn á vanda sauðfjárbænda þola enga bið

Bændasamtökin og Landsamband sauðfjárbænda hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þungum áhyggjum er lýst vegna þeirrar upplausnar sem nú sé á stjórnmálasviðinu og óttast samtökin hvaða áhrif sú staða muni hafa á úrlausn á vanda sauðfjárbænda. Í yfirlýsingunni segir meðal annars “ Nýjustu vendingar í þjóðmálunum og sú staðreynd að núverandi ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar er fallin setja málið í uppnám. Samtök bænda leggja þunga áherslu á að lausnum fyrir sauðfjárbændur verði ekki frestað. Málið þolir enga bið. Það er mikilvægt að Alþingi setji málefni sauðfjárbænda á dagskrá svo fljótt sem unnt er og taki tillit til þeirra athugasemda sem bændur munu leggja fram við framlagðar tillögur fráfarandi landbúnaðarráðherra. Skjót og farsæl úrlausn mun eyða óvissu og tryggja að ekki verði hrun í stétt sauðfjárbænda. Landssamtök sauðfjárbænda og Bændasamtök Íslands beina þeim skilaboðum til sinna félagsmanna að ekkert er í hendi um aðgerðir fyrr en Alþingi hefur tekið afstöðu til málsins„.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila