Sektir vegna umferðarlagabrota hækka 1. maí

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur skrifað undir nýja reglugerð um sektir og önnur viðurlög fyrir umferðarlagabrot. Reglugerðin sem um ræðir mun taka gildi 1.maí næstkomandi. Fram kemur í tilkynningu að sektir við umferðarlagabrotum hafi ekki hækkað í rúman áratug og var talin ástæða til að samræma sektarupphæðir á þann hátt að þær fylgi þróun verðlags. Þá segir að nauðsynlegt sé að fjárhæð sekta endurspegli alvarleika umferðarlagabrota og þá hættu sem þau skapa.  Hækkun sekta verður í flestum tilvikum í samræmi við þróun verðlags, þó þannig að lægsta sektarfjárhæð frá 1. maí verður kr. 20.000 en var áður 5.000 kr. Eina undantekningin er að sekt fyrir að hafa ekki ökuskírteini meðferðis verður 10.000 kr. Sekt fyrir að nota farsíma við stýrið án handfrjáls búnaðar verður 40.000 kr. í stað 5.000 kr. Ástæða þeirrar hækkunar er meðal annars aukin tíðni slíkra brota og sú hætta sem er samfara notkun farsíma við akstur.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila