Sérstök reglugerð um vegi í náttúru Íslands tekur gildi

Ný reglugerð um vegi í náttúru Íslands hefur tekið gildi. Með innleiðingu nýju reglnanna verður til skrá um vegi aðra en þjóðvegi í náttúru Íslands þar sem umferð vélknúinna ökutækja er heimil. Í reglugerðinni er meðal annars kveðið á um að við gerð aðalskipulags eða svæðisskipulags gera sveitarfélög tillögu að slíkri skrá í víðtæku samráði við m.a. félaga- og hagsmunasamtök og stofnanir.
Þegar kemur að því að meta hvort vegir eigi heima á ofangreindri skrá er litið til ýmissa þátta eins og hvort akstur á þeim sé líklegur til að valda neikvæðum áhrifum á náttúru, til dæmis rasks á gróðri, valdi jarðvegsrofi eða hefur neikvæð áhrif á ásýnd og landslag. Vegirnir á skránni  verða flokkaðir í fjóra flokka meðal annars eftir greiðfærni. Þá þarf að fylgja skráningunni hvort um opna vegi eða vegi með takmarkaða notkun sé að ræða. Í tilkynningu segir að þó svo að akstur sé heimilaður á vegum samkvæmt skránni feli það ekki í sér að þeir séu færir öllum vélknúnum ökutækjum og leiði ekki til ábyrgðar ríkis eða sveitarfélaga á viðhaldi þeirra. Vegagerðin mun halda skrá yfir vegina í stafrænum kortagrunni og veita almenningi aðgang að skránni í gegnum vefþjónustu bæði til skoðunar og niðurhals.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila