Seyðfirðingar krefjast svara um Fjarðarheiðargöng

Bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar vill að ákvörðun um framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng verði sett inn í samgönguáætlun sem birt verður á komandi haustþingi. Þetta kemur fram í áskorun sem bæjarstjórnin sendi frá sér í vikunni. Í áskoruninni er bent á að Seyðisfjörður sé auk nágrannanna á Borgarfirði eystra eina byggðarlagið þar sem íbúarnir þurfi að fara um háa fjallvegi til að komast inn í almenna vegagerið og að sú staða sé með öllu óásættanleg. Þá bendir bæjarstjórnin jafnframt á að  úrbætur í þessum efnum séu bæði öryggismál og mikilvæg gátt fyrir ferðaþjónustu þar sem heiðin sé hluti af beinni tengingu Íslands við Evrópu. Þá segir jafnframt í áskoruninni ” Verkefnið fer vel saman við yfirlýsingar ríkisstjórnar og áform um uppbygginu innviða í landinu. Þá bendir bæjarstjórn Seyðisfjarðar á að verkefnið er utan þeirra svæða landsins þar sem þensla ríkir og ætti því ekki að vera til þess fallið að raska efnahagslegu jafnvægi á nokkurn máta. Bæjarstjórn Seyðisfjarðar vill því enn og aftur hvetja samgönguráðherra, ríkisstjórn og Alþingi til að líta á þær staðreyndir sem liggja fyrir um undirbúning Fjarðarheiðarganga og láta verkin tala.“

Athugasemdir

athugasemdir

Deila