Sigmundur Davíð stofnar Framfarafélagið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi forsætisráðherra.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi forsætisráðherra hefur ákveðið að stofna nýja stjórnmálahreyfingu sem mun bera nafnið Framfarafélagið. Sigmundur ætlar með stofnun hinnar nýju hreyfingar að vinna að þeim stefnumálum sem hann hefur lagt höfuðáherslu á í sínu stjórnmálastarfi um árabil, en að stofnun félagsins koma einnig margir félagar Sigmundar úr Framsóknarflokknum auk annara utan flokksins víðsvegar að af landinu. Þá eru einnig meðal stofnenda einstaklingar sem ekki hafa áður tekið þátt í stjórnmálum.

Í tilkynningu sem Sigmundur Davíð sendi frá sér fyrir stundu segir meðal annars “ Framfarafélagið er stofnað í því skyni að leita bestu leiðanna til að bæta samfélagið og líf allra Íslendinga. Það ætlum við að gera með því að skapa öflugan vettvang fyrir frjálsa umræðu, fræðslu og framsetningu hugmynda og lausna. Við munum leita eftir sjónarmiðum þeirra sem best þekkja til á hverju sviði og leita til fólks sem sér hlutina í nýju ljósi og getur bent á frumlegar og snjallar leiðir og lausnir. Framfarafélagið mun vinna að því að vernda og styrkja það sem vel hefur reynst og laga það sem betur má fara. Starf félagsins grundvallast á rökhyggju og því megininntaki frjálslyndisstefnunnar að frjáls skoðanaskipti og rökræða séu drifkraftur framfara. Tilgangur rökræðu er að leiða í ljós hvað er rétt og rangt, gott og slæmt. Markmið félagsins er því að virkja skoðanaskipti og fróðleik til að finna bestu leiðina sem völ er á hverju sinni og stuðla að því að sú leið verði farin. Félagið er ekki flokkspólitískt og er opið fyrir góðum hugmyndum og lausnum sama hvaðan þær koma. Það aðhyllist hvorki sósíalisma né frjálshyggju en telur þó að ólík hugmyndafræði hafi að geyma gagnlegar hugmyndir og innsæi sem nýst geta í leitinni að bestu niðurstöðunni hverju sinni“ Stofnfundur félagsins verður haldinn í Rúgbrauðsgerðinni næstkomandi laugardag kl.11:00.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila