Skipa nefnd sem ætlað er að vinna að stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu

Ríkisstjórnin ákvað í dag, að tillögu Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra, að skipa þverpólítíska nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu til að leiða vinnu um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Í tilkynningu segir að með nefndinni muni enn fremur starfa samráðshópur helstu hagsmunaaðila og almannasamtaka, s.s. náttúruverndarsamtaka, útvistarsamtaka og samtaka hagsmunaaðila s.s. í ferðaþjónustu, landbúnaði og orkumálum.  Þá verður leitað tilnefninga í nefndina frá öllum flokkum á Alþingi, auk tveggja fulltrúa sveitarfélaga og fulltrúa frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu.
Nefndinni er meðal annars ætlað að skilgreina mörk þjóðgarðsins og setja fram áherslur um skiptingu landssvæða innan hans í verndarflokka. Einnig er henni ætlað að fjalla um hugsanlegar aðkomuleiðir og þjónustumiðstöðvar, svæðisskiptingu og rekstrarsvæði og greina tækifæri með stofnun þjóðgarðs á byggðaþróun og atvinnulíf. Jafnframt er henni ætlað að gera tillögur að helstu áherslum í stjórnunar- og verndaráætlunum og atvinnustefnu fyrir þjóðgarðinn.
Nefndin mun hafa til hliðsjónar í störfum sínum skýrslu nefndar umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og hagaðila um forsendur fyrir stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands sem kom út í nóvember 2017. Í skýrslunni er m.a. að finna heildstætt yfirlit um miðhálendið, náttúru og menningarminjar þess, yfirlit yfir helstu stefnumörkun sem fyrir liggur um miðahálendið varðandi verndun, auðlindir, nýtingu, innviði og helstu hagsmuni innan miðhálendisins.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila