Skipa verkefnastjórn um endurmat á peningastefnunni

Skipuð hefur verið þriggja manna verkefnastjórn sem ætlað það hlutverk að endurmeta peningastefnuna. Fram kemur í tilkynningu að skipunin sé í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar en í henni segir „að unnið verði að því að draga úr þeim miklu sveiflum sem verið hafa á gengi krónunnar. Slíkar sveiflur stuðli að óstöðugleika og skýri að nokkru hvers vegna vextir eru að jafnaði hærri hér á landi en erlendis og því verði forsendur peninga‐ og gjaldmiðilsstefnu Íslands endurmetnar, meðal annars í ljósi breytinga sem orðið hafa á efnahagsmálum þjóðarinnar með stórsókn ferðaþjónustunnar og ört vaxandi gjaldeyrisforða„. Þá segir að markmið endurskoðunarinnar sé að finna þann ramma peninga- og gjaldmiðilsstefnu sem til lengri tíma litið er heppilegastur til að styðja við efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika með tilliti til hagvaxtar, verðbólgu, vaxta, gengis og atvinnustigs. Í endurskoðuninni verður einnig rammi núverandi peningastefnu metinn, greint hvaða umbætur sé hægt að gera á peningastefnunni að því gefnu að halda skuli í megineinkenni núverandi peningastefnu sem byggir á verðbólgumarkmiði og greina aðra valkosti við peningamálastjórnun, svo sem útfærslur á gengismarkmiði, með hefðbundnu fastgengi eða fastgengi í formi myntráðs. Verkastjórnina skipa þau Illugi Gunnarsson hagfræðingur og fyrrverandi menntamálaráðherra, Tinna Finnbogadóttir hagfræðingur í Fjármála og efnahagsráðuneytinu og Ásdís Kristjánsdóttir hagfræðingur.

Athugasemdir

athugasemdir