Skýrsla um varðveislu menningararfleifðar á stafrænu formi birt

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur gefið út skýrslu um stöðu varðveislu íslenskrar menningar­arfleifðar á stafrænu formi. Aðdragandi verkefnisins var þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi, 16. maí 2014 um „að fela mennta- og menningar­mála ráðherra að setja fram markvissa, heildstæða og metnaðarfulla stefnu um varðveislu íslenskrar menningararfleifðar á stafrænu formi og leggja drög að því að verkið verði unnið á næstu 10–20 árum eftir því hversu umfangsmikið það verður talið“. Í skýrslunni er leitast við að kortleggja stöðu stafrænnar endurgerðar íslenskrar menningararfleifðar hjá söfnum og menningarstofnunum landsins og skapa þannig grundvöll fyrir stjórnvöld til að taka ákvarðanir um næstu skref.
Fram kemur í skýrslunni að umtalsverð þekking og reynsla í stafrænni endurgerð hefur byggst upp hér á landi, ekki síst í samstarfi við erlendar systurstofnanir og erlend samvinnuverkefni. Í tilkynningu segir að mörg söfn og stofnanir, ekki síst þau minni, séu illa burðug til að sinna verkefninu og á það við um bæði skráningu safnefnis og stafræna endurgerð.
Stafræn endurgerð menningar­efnis hefur verið í gangi um árabil og ýmislegt efni aðgengilegt almenningi í gegnum vefi eins og t.d. Tímarit.is, Íslandskort.is og Sarpur.is. Stafræn endurgerð og varðveisla er vandasöm og dýr í framkvæmd og því mikilvægt að stuðla að samræmingu og samvinnu til að ná sem bestum árangri og hagkvæmni. Þá segir að skynsamleg forgangsröðun sé afar mikilvæg því hvorki sé talið æskilegt né raunhæft að stefna að því að endurgera alla safneign á stafrænt form.
Sérstaklega er talið mikilvægt að setja í forgang verkefni sem snúa að varðveislu og stafrænni endurgerð menningarminja sem eru í hættu. Þetta eigi ekki síst við hljóð- og myndefni sem er í hættu vegna rýrnunar á gæðum og skemmda eða hætta á að efnið verði óaðgengilegt vegna úreldingar búnaðar og tækja.

Athugasemdir

athugasemdir