Sósíaldemókratar bæta við sig 6 þingmönnum og verða naumlega stærsti flokkur Finnlands

Antti Rinne formaður Sósíaldemókrata

Sósíaldemókratar sóttu í sig veðrið í finnsku þingkosningunum í gær og bættu við sig sex þingmönnum og hafa nú 40 þingmenn og 17.7% fylgi. Aðeins 0,2% skilja á milli þeirra og Sannfinna sem fylgdu fast á hælum og fengu 17,5% atkvæða og 39 þingmenn, – einum fleiri en áður. Miðflokkurinn fékk hroðalega útreið, var áður langstærsti flokkurinn með 49 þingmenn og tapar 18 þingmönnum og heldur 31 með 13,8% atkvæða. Græningjar bæta við sig fimm þingmönnum og fá 25 kjörna á þing, sömuleiðis bætir Vinstri flokkurinn við sig 4 og fær 16 þingmenn. Sænski Alþýðuflokkurinn í Finnlandi heldur sínum 9 þingmönnum og Kristdemókratar sínum 5. Aðrir fá 2 þingmenn. Enginn flokkur náði 18% fylgi (sjá mynd neðar) sem er einsdæmi og gætu stjórnarmyndunarviðræður því tekið tíma. Þing kemur saman þegar á miðvikudaginn og Finnar taka við formennsku í ESB 1. júlí n.k. Talið er að Sósíaldemókratar fái umboð til myndunar ríkisstjórnar og dugir þeim ekki samstarf við Græna og Vinstri heldur verða þeir að fá stuðning fleiri. Göran Djupsund sagði í sænska sjónvarpinu að „þegar við höfum þrjá jafn sterka eða veika flokka á toppnum eins og hér, þá verður augljóslega erfitt að mynda ríkisstjórn. Höfuðspurningin verður hvort Sameiningarflokkurinn geti hugsað sér að ganga til samstarfs í ríkisstjórn.“ 

Síðast þegar sósíaldemókratar voru stærstir í þingkosningunum var árið 1999 fyrir 20 árum síðan. Litlu munaði að Sannfinnar myndu vinna kosningarnar en þeir sóttu mjög í sig veðrið undir lokin á meðan sósíaldemókratar töpuðu á síðustu metrunum, þrátt fyrir að ná naumlega að verða stærsti flokkurinn með aðeins 0,2% meira fylgi en Sannfinnar.
4 milljónir 510 þúsund Finnar voru á kjörskrá, kjörsókn var 72% sem þykir gott á finnskan mælikvarða. Gild atkvæði voru 3.078.485 og ógild 19.029.

Sjá nánar hér og hér

Athugasemdir

athugasemdir

Deila