Sósíalistar gagnrýna stefnu nýs borgarmeirihluta harðlega

Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins.

Sósíalistaflokkurinn í Reykjavík segir sáttmála nýs meirihluta borgarstjórnar ekki vera í neinu samræmi við þá stefnu sem flokkarnir settu fram í aðdraganda kosninga „Meirihlutasáttmálinn er fráleit niðurstaða þess sem flokkarnir sögðu og héldu fram í kosningabaráttunni, sem á endanum snerist að miklu leyti um húsnæðiskreppuna, láglaunastefnuna og önnur hagsmunamál hinna verra settu,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalista um meirihlutasáttmála Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vg. „Þessi sáttmáli boðar engar aðgerðir sem máli skipta til að bæta lífskjör hinna láglaunafólks og annarra fátækra. Þeir brauðmolar sem þau fá eru bæði fáir og smáir.“

Segja sáttmálann boða áframhaldandi húsnæðiskreppu

Sósíalistar eru afar ósáttir við þá húsnæðisstefnu sem nýr meirihluti hefur samþykkt og segja hana í raun viðhalda óbreyttu ástandi „Meirihlutinn ætlar sér að reka nánast óbreytta húsnæðisstefnu og það er húsnæðisstefna sem miðar að því að hin verr stæðu beri allan kostnað af kreppunni,“ segir Sanna. „Hin verr stæðu í Reykjavík hafa tekið á sig gríðarlegar hækkanir húsaleigu vegna húsnæðiskreppunnar og þær hækkanir hafa étið upp ráðstöfunarfé þeirra fjölskyldna sem síst mátti við auknum byrðum. Þetta er miskunnarlaus stefna gagnvart fátæku fólki, að varpa öllum kostnaði af vandanum yfir á þau sem síst geta staðið undir því.“

Óskiljanleg samgöngustefna

Samgöngustefnan leggst einnig mjög illa í sósíalista sem þeir segja að sé illskiljanleg „Meirihlutinn vill fjölga ferðum strætó á háannatíma og fella niður fargjöld barna 12 ára og yngri sem ferðast í fylgd með fullorðnum,“ en í dag er ókeypis í strætó fyrir sex ára og yngri. „Hvernig eiga fátækar fjölskyldur að nýta sér þetta?“ spyr Daníel. „Á einstæða móðirin í láglaunastarfinu að taka sér frí til að geta ferðast með barninu sínu eftir skóla í tómstundir eða í pössun til afa og ömmu? Og til hvers? Svo strætó fái fullt fargjald frá henni frekar en hált frá barninu?“ „Við skiljum þessa tilllögu ekki,“ segir Sanna. „Óttast meirihlutinn að börnin ofnoti þjónustuna ef þau fá að ferðast ókeypis með strætó? Það er einhver hugsun á bak við þessa tillögu sem við skiljum ekki. Það er komið til móts við kröfur fólks en með þeim hætti að það gagnast því ekki.“

Ekki nóg að lækka skólagjöld

Stefna meirihlutans í skólamálum er sósíalistum einnig umhugsunarefni Í meirihlutasáttmálanum er tvennt lagt til, annars vegar að hver fjölskylda greiði ekki námsgjald með fleirum en einu barni og hins vegar að hver fjölskylda greiði ekki fæðisgjald með fleirum en tveimur börnum eftir 2021 „Skólinn á að vera gjaldfrjáls,“ segir Sanna. „Gjaldfrjáls skóli er ein af stoðum velferðarkerfisins og forsenda góðs samfélags. Þótt þessar tillögur lækki gjaldtökuna hjá barnmörgum fjölskyldum þá eru þetta aðeins hænuskref sem gagnast fáum. Við Daníel erum bæði uppkomin fátæk börn. Þessar tillögur hefðu engu breytt fyrir okkur eða fátækar mæður okkar. Í dag er hellingur af börnum sem búa við sömu aðstæður og við bjuggum við. Það er ekkert í þessum sáttmála sem mun gagnast þeim börnum. Og það er sorglegt.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila