Sóttu fund Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra ásamt sendinefnd Íslands sátu fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sem fram fór í vikunni í New York.
Fundurinn fjallaði að þessu sinni um áskoranir og tækifæri við vinnu að auknu kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna í dreifbýli. Annað umfjöllunarefni sneri að þátttöku og aðgengi kvenna að fjölmiðlum og upplýsingatækni sem og áhrifum upplýsinga- og tæknimiðla á valdeflingu kvenna. Fundinn sóttu yfir átta þúsund manns frá heimsbyggðinni allri og voru viðburðir fundarins í opinberri dagskrá tæplega þrjú hundruð talsins. Samhliða henni stóðu frjáls félagasamtök að yfir 400 viðburðum í sérstakri dagskrá. Að þessu sinni telur sendinefnd Íslands 32 fulltrúa stjórnvalda, samtaka aðila vinnumarkaðarins og kvennahreyfingarinnar.

Funduðu einnig með framkvæmdastjóra UN Women

Norrænir ráðherrar jafnréttismála funduðu einnig með með Phumzile Mlambo-Ngcuka framkvæmdastjóra UN Women. Á fundinum með ráðherrunum þakkaði Phumzile norrænum stjórnvöldum öflugan fjárhagslegan og pólitískan stuðning við starfssemi UN Women en yfir 40% heildarframlaga til stofnunarinnar kemur frá Norðurlöndunum. Hún sagði Norðurlöndin vera mikilvæga fyrirmynd annarra ríkja hvað varðar árangur í jafnréttismálum og að þau væru í lykilstöðu til að sýna heimsbyggðinni fram á að raunhæft sé að ná fullu jafnrétti kvenna og karla fyrir árið 2030.  Ásmundur Einar Daðason lagði á fundinum áherslu á mikilvægi þess að tryggja íbúum dreifðra byggða aðgang að menntun og öflugri upplýsingatækni. Reynsla Íslendinga sýni að nauðsynlegt sé að stjórnvöld horfi til fjárfestinga á þessum sviðum til að syðja við uppbyggingu á landsbyggðunum.
Á fundinum þakkaði Félags- og jafnréttismálaráðherra Phumzile sérstaklega fyrir stuðning UN Women við þau verkefni sem Ísland hefur unnið að á sviði jafnréttismála og ítrekaði boð stjórnvalda um heimsókn til Íslands á næsta ári. Jafnframt afhenti félags og jafnréttismáalaráðherra Phumzile sérstakan þakklætisvott, íslenska jafnlaunamerkið og sagði að Ísland ætlaði sér að ná að jafna að fullu óskýrðan launamun kynjanna fyrir árið 2022. Af því tilefni sagði Phumzile að hún væri sannfærð um að Ísland gæti orðið fyrsta landið í heiminum til að ná fullu jafnrétti milli kynjanna og að hún væri mjög spennt að koma aftur til Íslands.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila