Staðfest að 77 létust í árás í Nice

nice14716Frönsk yfirvöld hafa staðfest að 77 hafi fallið og eitt hundrað særst í hryðjuverkaárás í borginni Nice í Suður Frakklandi í kvöld. Árásin var framin með þeim hætt að vöruflutningabifreið var ekið á mikilli ferð inn í mannþröng þar sem fólk hafði safnast saman til þess að horfa á flugeldasýningu í tilefni þjóðhátíðardags Frakklands. Sjónarvottar segja að bifreiðinni hafi verið ekið um tvo kílómetra inn í mannfjöldan áður en hún var stöðvuð. Þá segja sjónarvottar að maður sem ók bifreiðinni hafi stigið út úr bifreiðinni og hafið skothríð á fólkið. Frönsk yfirvöld hafa skilgreint atvikið sem hryðjuverk og hafa þegar hafið hryrðjuverkarannsókn á málinu. Bílstjórinn var skotinn til bana af lögreglu og við rannsókn á bifreiðinni kom í ljós að hann reyndist hlaðinn skotvopnum og sprengjum. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Frakklandi og fólk hvatt til þess að halda sig innan dyra. Enginn hefur enn lýst ábyrgð á árásinni á hendur sér. Utanríkisráðuneytið biður íslendinga sem staddir eru á svæðinu að hafa samband við ættingja sína og láta vita af sér. Þá er upplýsingasími ráðuneytisins opinn fyrir þá sem ekki hafa náð sambandi við ættingja sína í Nice en númerið er 545-9900.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila