Starfshópur fylgir eftir framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks

Félags og jafnréttismálaráðherra hefur skipað starfshóp sem hefur verið falið það hlutverk að vinna stöðumat á því hvernig framkvæmdaáætlun stjórnvalda í málefnum fatlaðs fólks sé framfylgt. Eins og kunnugt er samþykkti Alþingi í vor þingsályktunartillögu félags- og jafnréttismálaráðherra um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017–2021. Framkvæmdaáætlunin tekur við af fyrri þingsályktun sem unnið var eftir árin 2012–2017. Í nýju áætluninni eru tilgreind 39 verkefni á sjö málasviðum sem lúta að aðgengi, atvinnu, heilsu, ímynd og fræðslu, menntun, sjálfstæðu lífi og þróun þjónustu.
Meginmarkmið framkvæmdaáætlunarinnar sem unnin var í víðtæku samráði við samtök fatlaðs fólks, þjónustuaðila, stofnanir og sérfræðinga, eru að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði innleiddur í alla lagaumgjörð og framkvæmd. Þannig megi stuðla að því að fatlað fólk, börn jafnt sem fullorðnir, geti lifað sjálfstæðu lífi og njóti mannréttinda til jafns við aðra.
Starfshópurinn sem félags- og jafnréttismálaráðherra skipaði og hóf störf í vikunni mun m.a. vinna að fyrrgreindu stöðumati í upphafi tímabils framkvæmdaáætlunarinnar og endurmati í lok tímabilsins. Auk þess er gert ráð fyrir að hópurinn leggi fram tillögur fyrir ráðherra að forgangsröðun verkefna eigi síðan en í febrúar ár hvert og skili samhliða greinargerð um framgang verkefna liðins árs.
Starfshópurinn er þannig skipaður:
Rósa Guðrún Bergþórsdóttir, án tilnefningar, formaður
Bryndís Snæbjörnsdóttir, tilnefnd af Landssamtökunum Þroskahjálp
Elísabet Gísladóttir, tilnefnd af dómsmálaráðuneytinu
Gústav Aron Gústavsson, tilnefndur af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu
Halldór Sævar Guðbergsson, tilnefndur af Öryrkjabandalagi Íslands
Tryggvi Þórhallsson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila