Starfshópur um uppbyggingarhlutverk lífeyrissjóða í atvinnulífi skipaður

Ráðherranefnd um efnahagsmál hefur fjallað um málefni lífeyrissjóða og ákveðið að forsætisráðherra skipi starfshóp um hlutverk þeirra í uppbyggingu atvinnulífs. Í starfshópnum eiga sæti Gunnar Baldvinsson, formaður, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, Áslaug Árnadóttir, lögmaður og Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri eTactica ehf.
Í tilkynningu segir að eignir lífeyrissjóða hafa aukist verulega á liðnum árum og voru samtals 3.514 milljarðar í ársbyrjun 2017 eða um 150% af landsframleiðslu. Í tilkynningu segir að í  ársbyrjun 1998, þegar lög um lífeyrissjóði voru samþykkt, hafi eignir sjóðanna verið 407 milljarðar og verið 75% af landsframleiðslu. Þá segir að  miðað við spár sé talið að stærð sjóðanna muni að hámarki nema um þrefaldri landsframleiðslu á næstu áratugum.  Fram kemur að vegna mikils vaxtar séu lífeyrissjóðirnir umsvifamiklir í íslensku efnahagslífi og eiga stóran hluta innlendra peningalegra eigna, sérstaklega skráðra verðbréfa. Auk þess eiga þeir verulegar eignir sem eru ekki skráðar í kauphöll, þ.á m. útlán til sjóðfélaga og hlutabréf í óskráðum fyrirtækjum.
Kveðið er á um það í lögum að lífeyrissjóður megi að hámarki eiga 15% (20% frá 1.7.2017) í hverju fyrirtæki. Leiðir þetta til dreifðra fjárfestinga en hefur haft þau áhrif að lífeyrissjóðir eiga í mörgum tilvikum hlut í fleiri en einu fyrirtæki á sama markaði. Þetta ásamt aukinni eignarhlutdeild lífeyrissjóða kallar á umræðu um aðkomu lífeyrissjóða að stjórnun atvinnufyrirtækja, um samkeppnismál og stjórnarhætti.
Starfshópurinn sem skipaður hefur verið er ætlað meðal annars horfa til eftirfarandi viðfangsefna:
Hvaða efnahagslegu og samkeppnislegu hættur felast í víðtæku eignarhaldi lífeyrissjóða í atvinnufyrirtækjum? Er æskilegt að setja reglur eða gera lagabreytingar um eignarhald og aðkomu lífeyrissjóða að stjórnun atvinnufyrirtækja til að draga úr áhættu sjóðanna og tryggja samkeppni á markaði?
Hvert er vægi eigna lífeyrissjóða og annarra fjárfesta í skráðum og óskráðum verðbréfum nú og fyrir áratug síðan og hvernig er líklegt að það þróist á næstu árum og áratugum? Er þörf á að gera ráðstafanir til að draga úr vægi lífeyrissjóða í íslensku efnahagslífi?
Hvernig hefur eignarhald fagfjárfesta í skráðum fyrirtækjum í nálægum ríkjum þróast? Getum við dregið lærdóm af umræðu innan annarra OECD-ríkja um áhættudreifingu og aðkomu lífeyris- og verðbréfasjóða að stjórnun atvinnufyrirtækja?

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila