Stefna Höfuðborgarlistans kynnt

Höfuðborgarlistinn kynnti stefnumál listans fyrir komandi borgarstjórnarkosningar á blaðamannafundi í dag sem haldinn var á kosningaskrifstofu framboðsins við Laugaveg. Helstu stefnumál listans snúa að húsnæðis, skipulags og umhverfismálum, en frambjóðendur listans telja hægt að gera mun betur í þeim efnum en nú er gert. Hér fyrir neðan má sjá helstu stefnumál Höfuðborgarlistans fyrir komandi kosningar.

Húsnæðisstefna

Höfuðborgarlistinn ætlar að byggja 10.000 íbúðir á kjörtímabilinu.
 ·         Við ætlum að vera með einstakt úrræði fyrir þá sem ætla að kaupa sína fyrstu íbúð. Höfuðborgarlistinn mun byggja íbúðir fyrir ungt fólk sem er að hefja sín fyrstu skref í lífinu með því að bjóða íbúðir frá 22 millj. kr. til 30 millj. kr. á verðlagi dagsins í dag. Um væri að ræða 2-4 herbergja íbúðir sem fara inná markað að 5-7 árum liðnum og skilyrði að viðkomandi eigi lögheimili í umræddu húsnæði. Þessi leið gefur ungu fólki og öðrum  tækifæri til að eignast sitt eigið húsnæði.
·         Umrædd fjölbýlishús verða byggð í Úlfarsársdal, Grafarholti, Norðlingaholti og á Kjalarnesi en forsenda fyrir þeirri byggð er betri vegtenging þar sem við ætlum að byggja Sundabraut á kjörtímabilinu í samvinnu við ríkið. Umrædd byggð er í úthverfum Reykjavíkur þar sem lóðarverð er lægra en í miðbænum.
Telur flokkurinn æskilegt að þétta byggð frekar?
 Höfuðborgarlistinn vill auka lóðaframboð í úthverfum Reykjavíkur, viljum taka til endurskoðunar þéttingarstefnu núverandi valdhafa sem hefur brugðist efnaminna fólki og þeim sem vilja eignast sitt eigið húsnæði, almenningur hefur ekki efni á kaupa  þar sem íbúðir kosta 600-700.000 kr. fm. á núverandi þéttingarreitum.  Við hjá Höfuðborgarlistanum ætlum að bjóða út 2-3 þúsund íbúðir sem verða seldar á 22 til 30 milljónir króna á verðlagi dagsins í dag. Um er að ræða 2,3,4 herbergja íbúðir sem verða frá um 70 fm. til 100 fm. að stærð. Þetta er okkar stærsta velferðar og lífsgæðamál. Það skal tekið fram að Höfuðborgarlistinn telur að þétting byggðar í miðborg Reykjavíkur þurfi ekki að vera slæm en þurfi að vera unnin í sátt við þá sem íbúa sem bú fyrir í borginni og sinna þörfum borgarbúa. Höfuðborgarlistinn ætlar í raun að þétta byggð í úthverfum Reykjavikur til að styrkja innviði hverfanna.

Umhverfisstefna

Höfuðborgarlistinn ætlar að hreinsa borgina og halda mengun ávallt undir viðmiðunarmörkum. Okkur er annt um að skólp renni ekki óhindrað meðfram ströndum höfuðborgarinnar og við munum fara í fyrirbyggjandi aðgerðir hvað þessi mál varðar. Vatnsverndarsvæði Reykjavíkur verða sett á sérstaka vakt til þess að tryggja að íbúar hafi alltaf aðgengi að hreinu og ómenguðu drykkjarvatni. Lagning og efnisval við malbikun stofnbrauta verður skoðað sérstaklega. Unnið verður með helstu sérfræðingum landsins á sviði umhverfismála til varnar íbúum borgarinnar.

Samgöngur

Höfuðborgarlistinn mun fjölga hringtengingum í stofnkerfinu, bæta við undirgöngum, kanna möguleika á gangnagerð og byggja mislæg gatnamót, til að létta á umferð um umferðarþyngstu götur og gatnamót borgarinnar. Sundabraut verður sett í algjöran forgang.

Höfuðborg landsins

Höfuðborgarlistinn leggur áherslu á að Reykjavík sinni hlutverki sínu sem höfuðborg landsins alls – svo eftir verði tekið. Reykjavík mun á ný verða stolt allra landsmanna, hrein, fögur, umhverfisvæn og örugg. Við viljum hafa flugvöllinn í höfuðborginni. Reykjavík á að vera samkeppnishæf við aðrar höfuðborgir í heiminum. Verslun, viðskipti, þjónusta og atvinna eru grunnstoðir allra borga.

Skipulagsstefna

Skipulagsmál verða að vera íhaldssöm og unnin til lengri tíma í sátt við íbúa. Borgarbúar og fyrirtæki í borginni eiga rétt á að búa við stöðugt skipulag og öryggi, með framtíðina í huga.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila