Stefnt að tilraunaframleiðslu á umhverfisvænu áli

frá vinstri: Sindri Frostason, efnaverkfræðingur, Jón Hjaltalín, Dr. Guðbjörg Óskarsdóttir, efnaverkfræðingur og Dr. Guðmundur Gunnarsson, efnaverkfræðingur.

Stefnt er að því að tilraunaframleiðsla á fyrsta umhverfisvæna álinu í heiminum hefjist í haust hér á landi. Tilraunaframleiðslan mun fara fram hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands en forvígismenn verkefnisins eru þeir Jón Hjaltalín og Dr. Guðmundur Gunnarsson efnaverkfræðingur hjá Arctus Metal, auk þeirra koma að verkefninu efnaverkfræðingarnir Sindri Frostason og Dr. Guðbjörg Óskarsdóttir. Hugmyndin byggist á nýrri útfærslu álkerja með lóðréttum málmblendi forskautum og keramik bakskauta sem eyðist lítið sem ekkert í 800 gráða raflausn kerjanna og koma þannig í stað hefðbundinna kolaskauta. Með þessari aðferð myndar framleiðslan súrefni í stað koltvísýrings, auk þess sem hún gerir það að verkum að orkunotkun verður minni, framleiðslan fari fram í mun minni álverum sem framleiða þó sama magn af áli og þá verða gæði framleiðsluvörunnar meiri. Til að byrja með verða gerðar tilraunir með 1000 ampera ker, en síðan verður farið í tilraunir með stærri ker, eða allt að 100.000 amperum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila