Stjórnsýsla félagsþjónustu efld og eftirlit með þjónustunni aukið

Stjórnsýsla og eftirlit með félagsþjónustu sem veitt er af hálfu sveitarfélaga, opinberra stofnana eða á grundvelli samninga verða falin nýrri ráðuneytisstofnun sem unnið er að því að setja á fót í velferðarráðuneytinu. Undir félagsþjónustu sveitarfélaga heyrir t.d. ýmis þjónusta sem snýr að börnum, fjölskyldum, fötluðu fólki, öldruðum og innflytjendum.  Ákvörðun um að fela þessi verkefni sérstakri stofnun byggist á tillögum nefndar sem ráðherra félagsmála skipaði árið 2014 með það að markmiði að styrkja undirstöður heildstæðrar þjónustu ríkis og sveitarfélaga og skilja með skýrum hætti á milli stjórnunar- og eftirlitshlutans annars vegar og veitingu þjónustunnar hins vegar.
Fram kemur í tilkynningu að víða hafi komið fram ábendingar um að bæta megi stjórnsýslu og eftirlit á sviði félagsþjónustu. Ekki liggja fyrir opinber viðmið um gæði félagsþjónustu, úttektir fara ekki fram með reglubundnum hætti og fyrirkomulag eftirlits með þjónustunni er að sumu leyti óljóst.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um þjónustu við fatlaða sem tekin var saman árið 2010 í aðdraganda yfirfærslu málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga var bent á að þótt þjónusta við fatlað fólk flyttist frá ríki til sveitarfélaga yrði ábyrgð á yfirstjórn og eftirliti eftir sem áður á hendi ráðuneytisins og mikilvægt að ráðast í ýmsar úrbætur á þessu sviði. Var meðal annars bent á þörf fyrir mótun gæðastaðla til að tryggja faglega og samræmda þjónustu, gerð samræmdra verklagsreglna og reglubundna öflun upplýsinga af hálfu ráðuneytisins um faglegt starf þjónustuaðila þar sem gripið væri til aðgerða ef frávik kæmu í ljós.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila