Stöðvuðu mjög umfangsmikla kannabisræktun á Suðurlandi

Lögreglan stöðvaði mjög umfangsmikla kannabisræktun í heimahúsi á Suðurlandi fyrr í þessari viku. Talið er að málið tengist rannsókn á skipulagðri brotastarfsemi en í fjórir einstaklingar voru handteknir í aðgerðum lögreglu. Eins og fyrr segir var ræktunin mjög umfangsmikil og lagði lögreglan hald á tæplega 400 plöntur og um tuttugu kíló af kannabislaufum en áður hafði lögreglan lagt hald á 1,5 kg af kannabisefnum og nokkuð af e-töflum og kókaíni við húsleit í skrifstofurými í Hafnarfirði í máli sem tengist áðurnefndri rannsókn, en þar var einn handtekinn. Þrír hinna handteknu í þessum málum eru erlendir ríkisborgarar. Að aðgerðunum komu lögregluliðin á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi og embætti ríkislögreglustjóra, en rannsókn málsins er jafnframt unnin í samvinnu við tollyfirvöld, pólsku lögregluna, m.a. Asset Recovery Office í Varsjá, og Europol. Lögregla vill koma á framfæri upplýsingasíma lögreglu þar sem almenningur getur komið á framfæri nafnlausum ábendingum um fíkniefnamál og önnur afbrot, en símanúmerið er 300-5005, þá má einnig koma ábendingum til lögreglu í einkaskilaboðum á fésbókarsíðum lögregluembættanna.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila