Stórfelldar blekkingar viðhafðar við kaupin á Búnaðarbankanum

Rannsóknarnefnd Alþingis hefur sannreynt að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser var aldrei í reynd fjárfestir í Búnaðarbankanum þegar 45,8% hlutur ríkisins í honum var seldur í janúar 2003, ólíkt því sem haldið var fram allt frá upphafi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknarnefnd Alþingis. Fram kemur að það sé afdráttarlaus niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis að stjórnvöld hafi skipulega verið blekkt í aðdraganda og kjölfar sölunnar. Þá segir að Síðari viðskipti á grundvelli ofangreindra leynisamninga hafi gert það að verkum, að Welling & Partners fékk í sinn hlut rúmlega 100 milljónir Bandaríkjadala sem voru lagðar inn á reikning félagsins hjá Hauck & Aufhäuser. Snemma árs 2006, eða um þremur árum eftir viðskiptin með eignarhlut ríkisins í Búnaðarbankanum, voru 57,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Marine Choice Limited sem stofnað var af lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama en skráð á Tortóla. Raunverulegur eigandi Marine Choice Limited var Ólafur Ólafsson. Um svipað leyti voru 46,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Dekhill Advisors Limited sem einnig var skráð á Tortóla. Í tilkynningunni segir að ekki liggi fyrir óyggjandi upplýsingar um raunverulega eigendur Dekhill eða hverjir nutu hagsbóta af þeim fjármunum sem greiddir voru til félagsins.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila