Takmörk á því hvað Ísland getur samþykkt gagnvart EES

Guðlaugur Þór Þórðarson og Michel Barnier aðalsamningamaður ESB.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ítrekaði mikilvægi farsællar niðurstöðu Brexit-viðræðna á fundi með aðalsamningamanni Evrópusambandsins í Brussel í dag. Guðlaugur Þór stýrði fundi EES-ráðsins í Brussel fyrir hönd ríkjanna EFTA-ríkjanna þriggja sem eru aðilar að EES-samningnum. Á fundinum báru tveggja stoða kerfi EES og málefni Brexit hæst.

 Utanríkisráðherra lýsti á fundinum hve mikilvægt EES-samstarfið hefði reynst ríkjunum þremur á þeim aldafjórðungi sem liðinn væri frá gildistöku samningsins. Um leið lagði hann áherslu á að á þeim viðsjárverðum tímum sem nú væru uppi í fríverslun í heiminum væri brýnt að aðildarríki EES stæðu vörð um þetta samstarf. Að undanförnu hefðu komið fram áskoranir í tengslum við svokallað tveggja stoða kerfi EES-samningsins, grundvallarforsendu samstarfsins, þegar valdheimildir væru færðar frá aðildarríkjum ESB til stofnana sambandsins.
Upp á síðkastið hefur orðið æ erfiðara að finna lausnir sem grundvallast á tveggja stoða kerfi EES-samningsins þegar slíkar valdheimildir eru færðar í samninginn,“ sagði Guðlaugur Þór. Þessi þróun samræmist illa stjórnarskrám Íslands og annarra EES-EFTA ríkja. „Þróunin undanfarin misseri hefur valdið óróa og það eru áhöld um hversu langt Ísland getur gengið í að fallast á lausnir sem vega að tveggja stoða kerfinu,“ sagði Guðlaugur Þór á fundinum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila