Talsverður erill hjá lögreglu í nótt

Talsverður erill var á vakt lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt og voru verkefnin afar fjölbreytt, þó mest hafi verkefnin snúist um að stöðva ökumenn sem grunur lék á að væru undir áhrifum. Á tólfta tímanum var tilkynnt um rúðubrot í verslun í miðborginni, ekki er ljóst hvort einhverju hafi verið stolið og þá er ekki enn vitað hver var þar að verki. Eftir miðnætti barst lögreglu kvörtun vegna geltandi hunds í húsnæði í austurborginni. Reynt var að hafa samband við eiganda hundsins án árangurs og var tilkynnandanum bent á að hafa samband við Matvælastofnun. Þá voru höfð afskipti af alls ellefu ökumönnum í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða annara vímuefna. Um miðnætti barst lögreglu tilkynning um innbrot í skóla í Hafnarfirði. Ekki er vitað hverjir voru þar að verki eða hvort einhverju hafi verið stolið en málið er í rannsókn.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila