Telja ólíklegt að ríkisstjórn Katrínar taki á ofurbónusum

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Gunnar Smári Egilsson fjölmiðlamaður og formaður Sósíalistaflokks Íslands.

Ólíklegt er að ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur taki á því meini sem ofurbónusar eru í samfélaginu. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Ragnars Þórs Ingólfssonar formanns VR og Gunnars Smára Egilssonar fjölmiðlamanns og formanns Sósíalistaflokks Íslands í síðdegisútvarpinu í dag en þeir voru gestir Péturs Gunnlaugssonar. Ragnar segir brýna nauðsyn að stjórnmálamenn fari að taka sig á hvað varðar þjónustu sína við almenning „stjórnmálamenn verða að koma niður á jörðina og hlusta á vilja almennings„. Ragnar Þór segist á þeirri skoðun að gera eigi slíka ofurbónusa upptæka með ofursköttum, en þeirri hugmynd er Gunnar Smári sammála „við eigum að gera kröfu um það að sett verði lög um það að settur verði á 99% skattur sem lagður verði á slíka bónusa„,segir Gunnar. Eins og greint hefur verið frá standa VR og Verkalýðsfélag Akraness fyrir mótmælum gegn ofurbónusum sem stjórnendur Klakka munu fá vegna fyrirhugaðrar sölu á fjármögnunarfyrirtækinu Lykli, sem áður hét Lýsing. Mótmælin fara fram fyrir framan höfuðstöðvar Lykils Ármúla á morgun og ætla mótmælendur að koma saman kl.12:30 og hefjast mótmælin formlega kl.13:00. Hlusta má þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila