Tölvupóstar sýna oddvita Árneshrepps ganga erinda Vesturverks og HS Orku

Samtökin Rjúkandi, samtök um verndun umhverfis, náttúru og menningarminja í Árneshreppi segja að stjórnun Árneshrepps hafi verið framseld til Vesturverks og HS Orku. Pétur Húni Björnsson stjórnarmaður í Rjúkanda óskaði eftir gögnun um samskipti oddvita Árneshrepps, Evu Sigurbjörnsdóttur við Vesturverk og HS Orku á grundvelli upplýsingalaga, en í þeim gögnum má sjá að þegar oddvitinn framsendir umsagnarbeiðnir frá yfirvöldum áfram til Vesturverks/HS Orku og biður fyrirtækið um að koma með punkta sem nýta ætti til þess að setja fram í umsögn hreppsins til yfirvalda.

Óskuðu eftir lærðum stikkorðum

 Í tilkynningu frá Rjúkanda vegna málsins er bent á nokkra tölvupósta sem sýna glögglega fram á vafasöm samskipti oddvitans við Vesturverk en í tölvupósti frá 16.júlí 2015 sem oddvitinn sendi á forsvarsmenn Vesturverks, Gunnar Gauk Magnússon framkvæmdastjóra og Ásgeir Magnússon forstjóra HS Orku segir meðal annars “  Ég áframsendi ykkur hér með póst frá Skipulagsstofnun þar sem þeir eru að fara fram á formlega umsögn frá sveitarfélaginu varðandi virkjunarmálin. Getið þið ekki sent okkur einhver „lærð“ stikkorð sem gætu nýst okkur til að skrifa svona umsögn?„. Pétur stjórnarmaður Rjúkanda segir að með þessu hafi fyrirtækjunum í raun hafa verið falið að hafa skoðun á virkjanamálum fyrir hönd hreppsins.

Lögmaður hreppsins kostaður af Vesturverki og HS Orku

Í pósti til Vesturverks/HS Orku 16. ágúst 2017 segir oddviti frá því hvernig hafi tekist að koma í veg fyrir að erindi minnihlutans væri tekið fyrir á hreppsnefndarfundi og í framhaldi að hún hafi ráðið lögmann til að veita ráðgjöf, í tölvupóstinum segir meðal annars „Nú er bara að fá þau hin til þess að samþykkja það að við fáum lögfræðiaðstoð við þessi mál, við hljótum alla vega að hafa meirihluta í hreppsnefndinni fyrir því.“ , síðar lýkur póstinum með þessum orðum: „Þetta var skýrsla dagsins.“. Lögmaðurinn sem um ræðir virðist eftir þetta hafa unnið ýmis verk fyrir hreppinn en af vinnuskýrslum að dæma verði ekki annað séð að töluverður tími hafi farið í persónulega ráðgjöf við oddvitann.

Alvarleg aðför að lýðræðinu

Pétur stjórnarmaður Rjúkanda segir að samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komi í tölvupóstunum sé ljóst að oddviti og meirihluti hreppsnefndar Árneshrepps hafi í raun framselt lýðræðislegt umboð sitt til að stjórna hreppnum til Vesturverks/HS Orku og að hinir kjörnu fulltrúar íbúa hreppsins sitji og standi eins og Vesturverki og HS Orku henti.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila