Umfangsmikil kannabisframleiðsla stöðvuð í Hafnarfirði

loggubillÍ síðustu viku stöðvaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu umfangsmikla kannabisframleiðslu í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði. Ræktunin fór fram á tveimur stöðum í húsnæðinu en samkvæmt upplýsingum lögreglu var bæði tækjabúnaðurinn og framleiðslan sjálf afar fullkomin. Þá var einnig lagt hald á hálft kíló af kannabisefnum sem tilbúin voru til neyslu. Einn karlmaður á fertugsaldri var handtekinn vegna málsins og játaði hann aðild sína að málinu, en við leit á manninum fannst efni sem talið er vera amfetamín. Í öðru máli sem upp kom í Hafnarfirði í síðustu viku var lagt hald á um fimm kíló af ætluðu marijúana sem tilbúið var til neyslu. Karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn í tengslum við málið og játaði hann að eiga efnin. Lögreglan vill minna á fíkniefnasímann 800-5005 en þar er hægt að koma nafnlausum ábendingum um fíkniefnamál til lögreglu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila