Unnur Brá kjörin formaður Vestnorræna ráðsins

Unnur Bra KonradsdottirUnnur Brá konráðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins var kjörin formaður Vestnorræna ráðsins á ársfundi ráðsins sem fram fór í Qaqortoq á Suður-Grænlandi dagana 21. til 22. ágúst. Í ræðu sem Unnur hélt í tilefni kjörsins lagði hún áherslu á mikilvægi þess að Vestnorræna ráðið haldi áfram að vinna að nánara samstarfi vestnorrænu landanna um málefni norðurslóða, þar á meðal á vettvangi Hringborðs norðurslóða og með því að tryggja að umsókn ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu verði samþykkt. Hún fagnaði yfirlýsingu utanríkiráðherra landanna þriggja frá því í gær, 22. ágúst, um að kannaðir verði kostir þess að gera þríhliða fríverslunarsamning milli landanna. Þá var samþykkt á ársfundinum að stjórnvöld á Íslandi og Færeyjum yrðu hvött til þess að vinna sameiginlega að rannsókn um umfang plasts í Norður-Atlantshafi og ekki síst áhrif þess á lífríki hafsins. Einnig var samþykkt að beina því til stjórnvalda landanna þriggja að vinna að greiningu á fýsileika þess að setja á fót vestnorræna eftirskóla, ætluðum 14-17 ára ungmennum frá vestnorrænu löndunum. Loks samþykkti ársfundur að beina því til stjórnvalda landanna þriggja að standa fyrir sameiginlegri ráðstefnu um stöðu vestnorrænu landanna í nýjum landfræðipólitískum veruleika.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila